námsbók: fs Reykjavík Menningarborg 2000  vb  kh  ath  25.09.03

B R A G I

FRUMSTIG   Ísland: lesa

„Á Skeiðarársandi“ (Njáls saga)

Brennu-Njáls saga

kafli 133

Eina nótt bar svo til að Svínafelli að Flosi lét illa í svefni. Glúmur Hildisson vakti hann og var lengi áður en hann gæti vakið hann. Flosi mælti þá: "Kallið mér Ketil úr Mörk."

Ketill kom þangað.
Flosi mælti: "Segja vil eg þér draum minn."
"Það má vel," segir Ketill.

"Mig dreymdi það," segir Flosi, "að eg þóttist staddur að Lómagnúpi og ganga út og sjá upp til gnúpsins. Og opnaðist hann og gekk maður út úr gnúpinum og var í geithéðni og hafði járnstaf í hendi. Hann fór kallandi og kallaði á menn mína, suma fyrr en suma síðar, og nefndi þá á nafn. Hann kallaði fyrstan Grím hinn rauða frænda minn og Árna Kolsson. Þá þótti mér undarlega við bregða. Mér þótti hann þá kalla Eyjólf Bölverksson og Ljót son Halls af Síðu og nokkura sex menn. Þá þagði hann stund nokkura. Síðan kallaði hann fimm menn af voru liði og voru þar Sigfússynir, bræður þínir. Þá kallaði hann aðra fimm menn og var þar Lambi og Móðólfur og Glúmur. Þá kallaði hann þrjá menn. Síðast kallaði hann Gunnar Lambason og Kol Þorsteinsson. Eftir það gekk hann að mér. Eg spurði hann tíðinda. Hann lést kunna að segja tíðindin. Þá spurði eg hann að nafni en hann nefndist Járngrímur. Eg spurði hvert hann skyldi fara. Hann kvaðst fara skyldu til alþingis. "Hvað skalt þú þar gera?" sagði eg. Hann svaraði: "Fyrst skal eg ryðja kviðu en þá dóma en þá vígvöll fyrir vegöndum." Síðan kvað hann þetta:

16.
Höggorma mun hefjast
herði-Þundr á landi.
Sjá munu menn á moldu
margar heila borgir.
Nú vex blárra brodda
beystisullr í fjöllum.
Koma mun sumra seggja
sveita dögg á leggi.

Hann laust niður stafnum og varð brestur mikill. Gekk hann þá inn í fjallið en mér bauð ótta. Vil eg nú að þú segir hvað þú ætlar draum minn vera."

"Það er hugboð mitt," segir Ketill, "að þeir muni allir feigir er kallaðir voru. Sýnist mér það ráð að þenna draum segjum við engum manni að svo búnu."

Flosi kvað svo vera skyldu.
Nú líður veturinn þar til er lokið var jólum.
Flosi mælti þá til sinna manna: "Nú ætla eg að vér skulum fara heiman því að mér þykir sem vér munum eigi setugrið hafa mega. Skulum vér nú fara í liðsbón. Mun nú það sannast sem eg sagði yður að vér mundum mörgum fyrir kné ganga verða áður en lokið er þessum málum."

 

(þessi texti Njálu í nútimastafsetningu er klipptur út úr geisladiski Íslendinga sögur og Orðstöðulykill (Rvk: Mál og menning, 1996; prentútgáfa: Íslendinga sögur og þættir, Rvk: Svart á hvítu, 1985-1987 og oftar)

   

[FORSÍÐA] [yfirlitstafla]

[athugasemdir, 25.09.03]