vinnubók: fs Reykjavík Menningarborg 2000  nb  kh  ath  25.09.03

B R A G I

vinnustig   land og haf: lesa

Bjargað úr arnarklóm

Verkefni

Óljóst er hve mikið er hæft í ýmsum þjóðsögum um að ernir hafi ráðist á börn. Til er þó staðfest frásögn af slíku barnsráni frá seinni hluta síðustu aldar.

Í júní 1942 birtist í Lesbók Morgunblaðsins viðtal við Ragnheiði Eyjólfsdóttur sem varð fyrir því, barn að aldri, að örn rændi henni.

„Sterklegur fugl og stór er örn, stundum hremmir hann lítil börn“.

Eins og gefur að skilja, sagði frú Ragnheiður, man ég ekkert eftir þessu sjálf. En mamma mín heitin sagði mér oft frá þessu. Ég er fædd 15. júlí 1877 en mun hafa verið rétt um það bil tveggja ára. Foreldrar mínir áttu heima á Skarði á Skarðsströnd, faðir minn, Eyjólfur Eyjólfsson, var ráðsmaður hjá ekkju Kristjáns kammerráðs, Ingibjörgu Ebenezardóttur. En móðir mín, Matthildur Matthíasdóttir, var þar í húsmensku að kallað var.

Tveggja ára í hvannstóði

Móðir mín hafði farið niður að á til að þvo þvott. Var brekkuhalli niður að ánni þar sem þvottastaðurinn var. En skammt fyrir ofan var hvammur og uxu blóm þar innan um hvannir. Þetta var í túninu á Skarði. Móðir mín skildi mig eftir í hvannstóðinu er hún fór að fást við þvottinn því hún taldi mig öruggari þar fjarri vatninu. Allt í einu heyrir hún að ég rek upp hræðsluóp en örn er kominn yfir mig þar sem ég sat við að tína blóm. Áður en hún vissi af hefur örninn sig upp og flýgur með mig í klónum hátt í loft upp en ekki heyrðist til mín nema rétt sem snöggvast. Hefur strax liðið yfir mig. Í fyrstu flaug örninn afar hátt þarna yfir. Það er eins og hann hafi viljað komast sem hæst strax til þess að hann kæmist á ákvörðunarstað þó honum gengi illa að fljúga þegar hann var farinn að þreytast. En auðvitað var ætlun hans að koma mér upp í arnarhreiður sem var í fjallinu fyrir ofan bæinn Kross. Í Krossfjalli höfðu arnarhjón átt sér hreiður í mörg ár og alið þar upp unga sína.

Reynt að ná erninum

Nú víkur sögunni til fólksins á Skarðstúninu sem þar var við heyskap. Þaut hver af stað sem betur gat til þess að reyna að ná erninum. En sá leikur sýndist ójafn og ljóst hver endirinn yrði. Enda sagði móðir mín að þegar hún leit upp frá þvottinum við ána og horfði á eftir erninum með mig í klónum, gat hún ekki ímyndað sér að hún sæi mig nokkurn tíma lifandi og kannske ekki einu sinni liðna. En Bogi Kristjánsson var snarráðastur og fljótastur að hugsa. Hann var skotmaður góður og datt honum fyrst í hug að reyna að skjóta örninn. En hann sá samstundis að það væri ekki gott ráð. Fyrst og fremst var óvíst hvort skotið kæmi í mig eða fuglinn, í öðru lagi var hætta á að ég félli til jarðar úr mikilli hæð ef hann hæfði örninn. Hann greip langa stöng og náði í röskan hest og reið áleiðis að Krossfjalli þar sem hreiðrið var.

Of þung fyrir örninn

Og brátt kom í ljós að örninn hafði hér ætlað sér of mikið. Ég var stór eftir aldri og reyndist fuglinum svo þung að áður en hann var kominn að fjallinu var hann farinn að þreytast svo hann flaug það lágt að Bogi komst á hesti sínum svo nálægt okkur að hann gat slegið stönginni í væng arnarins svo hann varð að setjast. Og þar sleppti hann byrðinni en Bogi var þá svo nálægt að ránfuglinn með sinn bilaða væng, gerði mér ekki mein þar sem ég var komin en lagði á flótta undan manninum. Móðir mín sagði mér að þar sem Boga tókst að slá stönginni í væng arnarins hafi hann verið kominn yfir Krossá svo vegalengdin sem hann hefur flogið með mig, hefur eftir því verið um 3 kílómetrar. Þegar Bogi kom að þar sem ég lá var ég í yfirliði. Örninn hafði læst klónum í föt mín á brjóstinu og voru förin eftir klærnar í hörundinu en sárin ekki djúp. Því fuglinn hafði fengið nægilegt hald í fötunum. Mig minnir að mér hafi verið sagt að örninn hafi læst nefinu í hár mitt á fluginu. En af því fékk ég engan áverka. Móðir mín sagði mér síðar að ég hefði verið dauf og utan við mig nokkra daga á eftir. En varanlegt mein fékk ég ekki af þessari einkennilegu loftferð.

  

Orðaskýringar
  • hremma = taka
  • hvammur = laut
  • hvönn = stór jurt
  • hvannstóð = margar hvannir
  • fjarri = langt frá
  • líða yfir = missa meðvitund
  • áverki = sár, meiðsli

 

[FORSÍÐA] [yfirlitstafla]

[athugasemdir, 25.09.03]