B R A G I |
||
Engill, pípuhattur og jarðarber |
Sjón(f. 1962) Sjón (skáldanafn Sigurjóns B. Sigurðssonar) er fæddur 27. ágúst 1962 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá FB 1982 og var einn af forkólfum í Medúsu, hóps ungra súrrealista í upphafi níunda áratugarins. Verk hans eru m.a. Drengurinn með röntgenaugun (ljóð, 1986), Stálnótt (skáldsaga, 1987), Engill, pípuhattur og jarðarber (skáldsaga, 1989), Ég man ekki eitthvað um skýin (ljóð, 1991), Augu þín sáu mig: ástarsaga (skáldsaga, 1994), Sagan af húfunni fínu (barnasaga, ásamt Halldóri Baldurssyni, 1995), POST: The Book on Björk (útg. í Englandi 1996) og Myrkar fígúrur (ljóð, 1998). Hann hlaut bókmenntaverðlaun DV 1995 fyrir skáldsöguna Augu þín sáu mig. |
Mjöll horfir spyrjandi á Stein þegar hann kemur hlaupandi niður
klettinn og út á sandinn til hennar. "Ég var að slökkva eldinn." Hann tekur af henni körfuna og leggur handlegg yfir axlir hennar. "Ég pissaði á hann!" "Steinn þó!" Segir Mjöll og klípur hann í hægri rasskinnina. "Svona ertu þá gerður?" Þau ganga til baka að veitingastaðnum. Blár neonhákarlinn yfir dyrunum blikkar. Birtist og hverfur eins og í dimmum sjó. Fyrir aftan staðinn er bekkur og þaðan fer strandvagninn. Þau fá sér sæti. Mjöll lítur á klukkuna. "Lokaferðin er eftir hálftíma! Við höfum tíma fyrir síðasta leik dagsins." "Og fyrsta leik næturinnar." [segir] Steinn /.../ "Um hvað er ég að hugsa?" Hún er hugsi andartak. "Ég er búin að ákveða mig!" "Er það minna en hönd?" "Nei." "Hef ég séð það?" "Já." "Stærra en höfuð?" "Jájá!" "Stærra en ég?" "Stundum og stundum ekki." "Er það úr jurtaríkinu?" "Já." "Hlutur?" "Já." "Er það algengt?" "Já." "Er það úr tré?" "Já." "Er það eingöngu úr tré?" "Nei." "Líka úr málmi?" "Að hluta." "Nota það allir?" "Nei." "Flestir?" "Já. Flestir einhverntíma." "Er það þungt?" "Það er misjafnt." "Gæti ég valdið því?" "Ekki einn." "En nota ég það einn?" "Yfirleitt." "Er það heilt í gegn?" "Nei." "Holt að innan?" "Já. Þegar ekki er verið að nota það." [...] "Kunna það allir?" "Það er ekkert að kunna." "Hefur þú notað það?" "Ekki ennþá!" |
Engill, pípuhattur og jarðarber
eftir Sjón. bls. 115-117. |
[FORSÍÐA] [yfirlitstafla]
[athugasemdir, 25.09.03]