námsbók: fs  vb  kh  ath  31.10.01

fjar
B R A G I

vinnustig   menning: skrifa

Grimmsævintýri

 

Verkefni

 

Mjallhvít

Það var hávetur, og snjókornin liðu til jarðar eins og hvítur dúnn.  Drottningin sat við gluggann með saumagrind úr svörtum tinnuviði og var að sauma í.  Þegar hún sat þarna og saumaði og horfði á snjókornin úti, stakk hún sig í fingurinn, og féllu þrír blóðdropar niður í mjöllina.  Hún hugsaði:  "Ég vildi eiga barn, sem er hvítt sem mjöll, rjótt sem blóð og svart sem tinnuvið."

     Skömmu síðar fæddi hún litla dóttur sem var hvít sem mjöll, rjóð sem blóð og hafði tinnusvart hár, og var hún kölluð Mjallhvít.  Þegar barnið var fætt, dó drottningin.

     Ári síðar kvæntist konungurinn að nýju.  Nýja drottningin var hin fegursta kona, en drembin og þóttafull og þoldi ekki að aðrar konur væru fríðari en hún.  Hún átti töfraspegil, og þegar hún speglaði sig í honum og sagði:

     "Spegill minn sæli, segðu mér nú, 
      hver er fríðust, er þekkir þú?"

þá svaraði spegillinn:

     "Drottning mín fagra, fríðust ert þú."

     Þá var hún ánægð, því að hún vissi að spegillinn sagði satt.

 

Aðlagaður texti: Tíu Grimmsævintýri, Iðunn, Reykjavík 1989

 

Stígvélaði kötturinn

Einu sinni var malari.  Auk myllu sinnar átti hann þrjá syni, asna og kött.  Synirnir gættu myllunnar, asninn bar mjöl og korn og kötturinn veiddi mýs.

     Þegar malarinn dó, skiptu synir hans með sér arfinum.  Sá elsti fékk mylluna, miðsonurinn asnann, en sá yngsti fékk köttinn.  Hann var ekki ánægður með það og sagði stúrinn við sjálfan sig:  "Það aumasta féll í minn hlut.  Hvað á ég að gera við köttinn?  Ég get gert mér eina hanska úr skinninu af honum - það er allt og sumt."

     "Heyrðu nú," sagði kötturinn, sem hafði skilið hvert hans orð, "það er óþarfi að lóga mér, og þú fengir aðeins eina lélega hanska úr skinninu.  Útvegaðu mér heldur stígvél, svo ég geti látið sjá mig innan um fólk.  Þú skalt ekki þurfa að iðrast þess."

     Malarasonurinn varð steinhissa þegar hann heyrði köttinn tala.  En þar sem skósmiðurinn gekk hjá , kallaði hann til hans og bað hann að búa til stígvél á köttinn.  Þegar stígvélin voru tilbúin, fór kötturinn í þau, tók síðan poka og lét í hann dálítið af korni.  Hann batt fyrir pokann, lagði hann á bak sér og hélt af stað á tveim fótum, svona rétt eins og maður.

 

Aðlagaður texti: Tíu Grimmsævintýri, Iðunn, Reykjavík 1989

 

 

 

 

[FORSÍÐA] [yfirlitstafla]

 

[athugasemdir, 31.10.01]