Tilgangur (efni, aðalatriði, markmið) |
- Að geta sagt hvað klukkan er á íslensku.
- Kyn á tölum.
- Framburðaræfing: Tölurnar henta vel sem framburðaræfing þar sem mjög mörg
hljóð í íslensku koma við sögu og margir íslenskir sérstafir.
|
Fyrirfram þekking nemenda |
- Búið að fara í íslenska stafrófið og hljóð.
|
Undirbúningur kennara |
- Prenta út öll fjögur blöðin
(pdf-skjal) með klukkuspilinu, ljósrita tvö og tvö saman á A-3 blöð og líma saman
með límbandi svo verði eitt spjald.
- Hægt er að ljósrita þetta á þunnt karton (jafnvel í ljósum lit) til
framtíðarnota. Nemendur biðja oft um að fá eintak af spilinu til að æfa sig heima
og því er gott að vera með auka ljósrit.
- Tveir til þrír teningar fyrir hvern hóp sem spilar.
- Einhvers konar peð í mismunandi litum fyrir nemendur (hægt að nota minnstu gerð af
"post-it" miðum sem nemendur skrifa nafnið sitt á).
|
Tillögur |
- Farið er í tölur í hvorugkyni en bent á að venjan er að telja í karlkyni.
Kenna þarf að auki tölurnar fimm, tíu, fimmtán, tuttugu og tuttugu og fimm.
Gott að dreifa málfræðiblaði úr Braga um tölur.
- Farið í framburð á tölunum.
- Hægt að byrja á því að kenna orðaforða yfir heila tímann, svo hálfa tímann,
svo korter/fimmtán mínútur yfir og í. Þá kenna fimm mínútur yfir (líklega
algengara talmál) eða fimm mínútur gengin í og svo enda á að kenna fimm
mínútur í eða hana vantar fimm mínútur í. (Það má hins vegar benda á að það
stendur ekki á spilinu hana vantar...í og ... hún er gengin í.... þar sem hugsunin
var að hafa þetta eins einfalt og hægt væri fyrir byrjendur). Ekki er farið í minna
en fimm mínútur í og yfir til að sleppa við tölur í kvenkyni.
- Bekknum er skipt í hópa, þrír til fjórir nemendur saman (ekki of stóra, þá
gengur þetta ekki nógu hratt). Þeir fá klukkuspilið Meistara Jakob, tvo teninga og
"peð".
- Byrjunarreitur er þar sem klukkan er átta.
- Fyrsti kastar teningunum, og færir peðið eins marga reiti og samtalan segir. Næsti
nemandi spyr þann sem gerði: "Hvað er klukkan?" Nemandinn á þá að svara:
"tuttugu og fimm mínútur yfir átta" og það er rétt, en ef hann/hún svarar
vitlaust, t.d. sleppir "mínútur" þá fer hann eina klukku til baka og þarf
aftur að svara því hvað klukkan er. Ef það er rétt núna á næsti að gera og svo
koll af kolli.
- Ef nemandi lendir á feitletraðri klukku með texta hjá, þarf að lesa textann og
fyglja fyrirmælunum. Kennari verður að hjálpa fólki með textann en þar er m.a.
talað um heiti á málsverðartímum og fleiru til að krydda spilið.
- Ef spilið gengur mjög hægt má bæta við þriðja eða fjórða teningnum.
|
Aðrir möguleikar |
- Þegar fólk er komið vel af stað má kenna orðasambönd eins og "fyrirgefðu,
geturðu sagt mér hvað klukkan er?" og gott að setja höndina yfir textann á
spilinu sjálfu til að fá fólk til að nota frekar eyrað en augað og endurtaka. Það
er yfirleitt miklu minna mál heldur en að lesa.
- Æfa tölur í hk. (seinna í kk.) um leið og peð er fært áfram (eitt, tvö ...).
- Spilið má nota til upprifjunar á klukkunni.
|
Ítarefni |
|
Annað sem má taka fram |
- Rétt er að láta hópinn dæma um hvenær reglunni um að fara einn reit til baka er
framfylgt eða hvort nemandi fær tækifæri til að reyna aftur með hjálp hinna.
|