Enginn partur ársins hefur dregið til sín jafnmargar
þjóðtrúarhugmyndir og skammdegið og þar með talin
jólafastan. Þá var mest hætta á að alls kyns illþýði
væri á ferli. Í Íslendingasögum er fátt um drauga, en helst
koma þeir við sögu um jólaleytið eins og í Eyrbyggja sögu og
Grettis sögu. Í þjóðsögum og ævintýrum síðari alda er
allt fullt af dæmum um hættu sem mönnum er búin um jólaleytið.
Frægasti óvættur af þessu tagi er Grýla. Orðið sjálft merkir einna helst, ,,ógn, hótun, hryllingur". Grýla birtist sem flagð eða óhræsi þegar á 13. öld. Hún er nefnd meðal tröllkvenna í þulum Snorra Eddu, og fleiri ritum frá svipuðum tíma. Frá 17. öld eru varðveitt fjölmörg Grýlukvæði og þulur. Þar eru margar herfilegar lýsingar á útliti hennar og atferli. Aðalvinna hennar er að afla fæðu í óseðjandi maga sinn og fjölskyldunnar, en hún átti þrjá bændur, Bola, Gust og Leppalúða og með þeim yfir sjötíu börn. Eftirlætismatur Grýlu er kjöt af óþægum börnum, en henni finnst fiskur, súpa og grautur vondur matur. Ljóst er að Grýla hefur gegnt miklu hlutverki við að temja börn og ala þau upp. Tilgáta er um að Grýla og fjölskylda gæti verið endurspeglun á grimmum yfirvöldum, því hún kemur fyrst verulega fram á sjónarsvið eftir að einveldi konungs verður algert á 17. öld. Jólasveinar (synir hennar) gætu samsvarað sýslumönnum konungs sem heimtuðu skatt af fátækum. Aðlagaður texti: Saga daganna bls. 337 - 340. |
[FORSÍÐA] [yfirlitstafla]
[athugasemdir, 14.12.01]