almennt  ath  25.09.03

B R A G I

>DE

Verkefnislýsing (9/99)

Bragi heitir einn. Hann er ágætur að speki og mest að málsnilld og orðfimi. (Snorra-Edda)
 

Markmið og markhópur

BRAGI er nafnið á nýstárlegu námsefni í íslensku sem erlendu tungumáli sem verið er að þróa. Það leggur áherslu á þarfir nemenda við ólíkar aðstæður með mismunandi námsmarkmið og ýtir undir tjáskipti í náminu. BRAGI er unninn á veraldarvefnum og er veffangið www.bragi.org. Meginuppistaða efnisins á að vera á íslensku en styðjast við aukaefni með skýringum á tungumáli nemenda (þýsku, ensku, sænsku, frönsku eða spænsku). Við vinnslu námsgagnanna á að nýta þá upplýsinga- og samskiptamöguleika sem veraldarvefur og tölvupóstur býður upp á. Námsefnið BRAGI er að öllu leyti sveigjanlega uppbyggt og nothæft fyrir mismunandi kennsluhætti hvar sem er í heiminum. BRAGI er fyrst og fremst hugsaður sem kennsluefni í lausblaðaformi. Kennarar geta sjálfir valið úr safninu með sinn nemendahóp í huga, breytt síðum og aðlagað eftir þörfum, prentað út og dreift í tímum. Nemendur þurfa því ekki endilega að hafa aðgang að netinu nema þeir óski eftir ítarefni sem fæst með því að nota virka tengla inn á íslenskar heimasíður. Námsefnið miðast við fullorðna nemendur (á byrjenda- og framhaldsstigi) í háskólum og fullorðinsfræðslu. Í endanlegri mynd mun það einnig henta til fjar- og sjálfsnáms.

 

Umfang verkefnis og samstarfsaðilar

Fjórir starfsmenn, tveir frá hvorri stofnun (Námsflokkum Reykjavíkur og Humboldt háskólanum í Berlín), þróa verkefnið og sjá um stjórnun þess. Þessar stofnanir tilraunakenna einnig efnið á frumstigi og síðar þegar öðru vinnslustigi er náð (vinnustigi) er reiknað með að lektorar frá öðrum löndum Evrópu tilraunakenni síðurnar. Þegar búið er að vinna inn athugasemdir kennara komast síðurnar á lokastig. Hægt er að sjá á hvaða vinnslustigi hver síða er með því að skoða litbrigði hennar. Ljósar síður eru á frumstigi en dökkur bakgrunnur gefur til kynna að síðan er á lokastigi. Fyrir einstaka aukaliði (þýðingar og staðfæringar á námsefni sem nauðsynlegt er að sé á tveimur tungumálum sem og vinnsla málfræði- og hljóðfræðiefnis) verður leitað til sérfræðinga. Ljósmyndasafn Reykjavíkur er samstarfsaðili og sér um öflun myndefnis.

Reiknað er með 3ja ára vinnslutíma frá og með maí 1999. Leitast er við að ná sem mestum sveigjanleika þrátt fyrir að haldið sé utan um verkið sem heild. Hið opna lausblaðaform á veraldarvefnum gefur margvíslega möguleika einnig eftir að hinni eiginlegu vinnslu efnisins lýkur. Takmarkið með verkefninu er auk þess að styrkja þróun kennslu í íslensku sem annars tungumáls með hjálp nútímalegrar kennslutækni sem nota má um allan heim. Verkefnið er styrkt af ES innan LINGUA D en einnig af Reykjavík Menningarborg árið 2000. Styrknum frá Reykjavíkurborg verður varið í að vinna efni fyrir nýbúa á Íslandi innan BRAGA. Þetta efni verður auðkennt og gefið út á árinu 2000 og í tilefni af því verður BRAGA-vefurinn formlega opnaður í júlí þess árs.

 

Verkefnislýsing

Almennt

BRAGI býður upp á breytilega kennslumöguleika. Hann samanstendur af nokkrum aðskildum en þó samtvinnuðum einingum: námsbók, vinnubók, kennarahandbók, orðaforða, málfræðikveri og hljóðfræðiæfingum. Efni námsbókar er skipt niður í þjóðfélagslega mikilvæg þemu (fólk, Ísland, náttúru, sögu, land og haf, menningu, Reykjavík, þjóðfélag), sem skiptast svo innbyrðis í möppur með áherslu á hæfni í einstökum þáttum tungumálanámsins (lesa, hlusta, skrifa, tala; orðaforði, málfræði, námstækni). Hægt er að tengja margvíslegt efni við þær möppur sem unnið er með hverju sinni (t.d. ritað mál, myndir, hlustun) og er áhersla lögð á að hafa sem flesta rauntexta (authentic material) í námsefninu. Átta köflum með tilheyrandi möppum er ætlað að ná yfir um 50 kennslueiningar á byrjunarstigi. Á framhaldsstigi verða hin sömu þemu dýpkuð og á sá hluti einnig að vera 50 kennslueiningar. Eins og sjá má í yfirlitstöflu verður til samsett kerfi úr þema, hæfni og stigi:

Náms-, vinnu- og kennarahandbók verða eingöngu á íslensku en samhliða því verður bætt við efni með skýringum á öðru tungumáli. Aukaefnið verður svo hægt að þýða á eins mörg tungumál og þörf er á þó sama námsbókin sé notuð. Þannig væri t.d. mögulegt að dreifa aukaefni á mismunandi tungumálum til nemenda á sama námskeiði.

Efnislega mun námsefnið vinna meðvitað gegn einhæfum klisjum um Ísland t.d. sem „frumkraft náttúruaflanna". Þess í stað verður boðið upp á þemu sem veita innsýn í íslenskt nútímaþjóðfélag og sögulegan, menningarlegan og þjóðfélagslegan bakgrunn þess, en gefa nemendum um leið tækifæri til að dýpka þá þekkingu af eigin rammleik, m.a. með tenglum sem vísa í veraldarvefinn.

BRAGI á veraldarvefnum

Með tilvist BRAGA á vefnum er unnt að halda uppi alþjóðlegu samstarfi í þróun og notkun námsefnisins. Nýstárlegt við námsefnið er að það brúar bilið milli kennslu og heimanáms við tölvu. Ekki er nauðsynlegt að nemandi hafi aðgang að veraldarvefnum því kennari prentar út einstakar síður og dreifir til nemenda í tímanum. Hins vegar geta nemendur leitað sér að meira efni með því að nota tenglana af BRAGA sem m.a. vísa á íslenskar heimasíður. Þannig verður stuðlað að sjálfsnámi og samstarfi nemenda utan eiginlegs kennslutíma. En þar sem íslenski veraldarvefurinn er mjög stór og í örri þróun opnast nýir möguleikar í náminu:

  1. Námsmenn erlendis geta heimsótt heimasíður fyrirtækja og stofnana í landinu sem kemur í stað vettvangskannana. Með þeim hætti fá þeir ómetanlega innsýn í daglega þætti þjóðfélagsins á líðandi stundu.
  2. Auðvelt er að tengja aukasíður við námsefnið til að dýpka það málfarslega og efnislega. Það gerir kennurum með nemendur á misjöfnum stigum auðveldara fyrir. 
  3. Kennarar geta sjálfir breytt efninu stafrænt, endurbætt og aðlagað það eigin þörfum (hægt er að taka þær síður inn í BRAGA).
  4. Auðvelt er að breyta efninu, bæta við nýjum síðum, taka burt útrunnið efni eða endurnýja það. Eftir að breytingarnar hafa verið unnar inn á vefinn er þegar í stað hægt að nota þær um allan heim.
  5. Smám saman verður hægt að nýta sér fleiri möguleika innan BRAGA. Vinna má með hljóðefni svipað og í málveri eða hlusta á texta og taka upp eigin rödd til samanburðar.
    BRAGI er ekki byggður upp í sérunnu forriti heldur er má skoða hann með hvaða vafra sem er. Öll tækni sem notuð er í BRAGA er fyrst og fremst auðveld í notkun, einföld í uppsetningu og ókeypis.

Með námsefninu BRAGI eru farnar nýjar leiðir í íslenskukennslu sem miða að þörfum nemenda við ólíkar aðstæður, stuðla að tjáskiptum og gera nemendum kleift að vinna sjálfstætt að málanáminu. Kennarar sem hingað til hafa þurft að viða að sér efni úr ýmsum áttum fá nú í hendurnar hjálpartæki sem gerir ráð fyrir ólíkum kennsluháttum, sameinar krafta margra aðila en er úthugsuð samfelld heild.

[FORSÍÐA]

[athugasemdir, 25.09.03]